Lestrarhátíð

Merki Lestrarhátíðar

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO stóð fyrir árlegri lestrarhátíð í Reykjavík árin 2012 - 2017 í samvinnu við stofnanir, félagasamtök og aðra sem starfa á bókmenntasviðinu. Slík hátíð var haldin í fyrsta sinn í október 2012 og var hátíðin fyrir fólk á öllum aldri. Markmið Lestrarhátíðar var að hvetja til lesturs, auka umræðu um bókmenntir og tungumál og síðast en ekki síst að vekja athygli á gildi orðlistar í menningaruppeldi og daglegu lífi.

Hátíðin stóð allan mánuðinn. Lestrarhátíð hlaut viðurkenningu Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2014.

 

 

Benedikt Gröndal

Bensi og aðrir fuglar

Í október 2017 var Lestrarhátíð ekki haldin með hefðbundnu sniði heldur var nýopnað Gröndalshús í Grjótaþorpi í brennidepli og dagskrá mánaðarins helguð því. Frítt  var inn í húsið allan októbermánuð. Við þessi þáttaskil í starfsemi Bókmenntaborgarinnar var hátíðin svo lögð niður.

Þann 17. júní 2017 var Gröndalshús opnað í glæsilegri endurgerð Minjaverndar. Þar er sýning um skáldið Benedikt Gröndal, ævi hans og störf. 

Benedikt Gröndal var stórhugi á sínum tíma og má nefna hann glæsilegan fulltrúa nítjándu aldarinnar sem og húsið sem við hann er kennt. Hann var skáld, náttúrufræðingur, myndlistarmaður og kennari. Hann var einnig áhugamaður um mótun bæjarins og þróun Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands. Auk ljóða og prósatexta liggja eftir hann greinar um lífið í bænum þar sem hann leggur til umbætur á höfuðstaðnum í anda þess sem tíðkast í erlendum stórborgum.

Minning Gröndals dofnaði um miðbik síðustu aldar en mikilvægi hans í íslenskri bókmennta- og menningarsögu hefur verið staðfest síðastliðin ár með útgáfu á verki hans Íslenskir fuglar og endurútgáfu á sjálfsævisögu hans, Dægradvöl, sem er ein rómaðasta sjálfsævisaga íslenskra bókmennta. Gröndal er einnig lifandi í skáldverkum samtímaskálda og má þar nefna skáldsögurnar Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar.

Dagskrá var í Gröndalshúsi þar sem farið var yfir sögu hússins og skáldsins. Landsbókasafn Íslands opnaði sýningu  6. október þar sem brot af handritum Benedikts voru til sýnis. Bókakaffi Gerðubergs í október var einnig helgað Benedikt Gröndal og dagskrá var um skáldið á fæðingarstað hans, Bessastöðum.