Bókmenntir heima í stofu

Á tímum samkomubanns, lokunar bókasafna og menningarstofnanna og heimavistar okkar flestra er gott að gefa sér tíma til að njóta bókmennta og annarra lista úr stofunni heima. Hér höfum við tekið saman það helsta sem við höfum rekist á og snýr að bókmenntumm en það er örugglega ýmislegt fleira í boði á samfélagsmiðlum og vefsíðum.  

Rafbókasafnið

Borgarbókasafnið er lokað en Rafbókasafnið er alltaf opið. Þar er hægt að fá að láni rafbækur og hljóðbækur. Mest er um bækur á ensku en þó er líka hægt að fá efni á íslensku.

Viðtal á RÚV við Úlfhildi Dagsdóttur, sem stýrir Rafbókasafninu: Hryllileg huggulegheit og kósý krimmar í heimsfaraldri

Önnur þjónusta Borgarbókasafns

Þótt bókasöfnin séu lokuð býður Borgarbókasafn upp á netspjall og þjónustu á Facebook og í síma. Sjá nánari upplýsingar hér á vef Borgarbókasafns.

Heimsendingaþjónusta útgefenda

Margir útgefendur bjóða upp á fría heimsendingu á bókum þessar vikurnar. Hér er listi yfir þessa útgefendur sem Félag íslenskra bókaútgefenda hefur tekið saman.

Lesendur í sóttkví eða einangrun eru hvattir til að geta þess í pöntunum sínum þannig að hægt sé að skilja sendingu eftir við hús og hingja í viðkomandi til að sækja út.

Útgefendur sem m.a. senda bækur með þessum hætti eru:
AM forlag
Angústúra 
Benedikt bókaútgáfa 
Bjartur Veröld 
Bókaútgáfan Hólar - holar(hjá)holabok.is
Bókstafur (ef keyptar eru 3 eða fleiri bækur)
Crymogea
Edda útgáfa - (500 kr. sendingargjald óháð magni) 
Forlagið 
Iðnú 
Kver 
Oran Books 
Óðinsauga - pantanir(hjá)odinsauga.com
Partus 
Rósakot 
Salka (frí heimsending á pöntunum yfir kr. 6.000) 
Setberg
Sögur útgáfa
Una útgáfuhús 

Eymundsson sendir heim

Í vefverslun Eymundsson er hægt að kaupa bækur og ýmsilegt annað efni sem bókaverslanirnar bjóða upp á og fá sent heim ef verslað er fyrir 5000 krónur eða meira. 

hljóðbækur

Margir nýta sér þjónustu hljóðbókaveitna þar sem hægt er að kaupa áskrift að bókum eða stakar hljóðbækur. Hér á Íslandi má nefna Storytel og hljóðbækur annarra bókaforlaga, svo sem Forlagsins

Ljóðalestur á netinu

Ljóð fyrir þjóð

Þjóðleikhúsið og RÚV bjóða landsmönnum að velja ljóð til flutnings á stóra sviði Þjóðleikhússins. Ljóðið er flutt fyrir einn áhorfenda í sal, þann sem valdi ljóðið, en jafnframt streymt á vef RÚV svo við getum öll notið flutningsins, hvar sem við erum. Dagskráin heitir Ljóð fyrir þjóð

Upplestur Svikaskálda

Bókmenntaborgin gerði sex ljóðavefstiklur með skáldahópnum Svikaskáldum í tilefni alþjóðadags ljóðsins í mars. Skáldin völdu ljóð til flutnings eftir önnur skáld, lesa þau upp og tala um ljóðið og merkingu þess fyrir sig. Stiklurnar birtast á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar dagana 21. - 26 mars og þar er hægt að njóta þeirra áfram. 

Ljóðaáskorun Bókmenntaborgarinnar

Á alþjóðadegi ljóðsins 21. mars skoraði Bókmenntaborgin á Facebooknotendur að lesa upp ljóð og á birta Facebook eða pósta mynd af uppáhaldslóði. Við hvetjum fólk til að halda áfram að deila ljóðum og öðrum skáldskap og list á samfélagsmiðlum, okkur öllum til uppörvunar og gleði. Þau innlegg sem eru birt með opnum aðgangi og merkt Reykjavík bókmenntaborg UNESCO má skoða á Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar (innlegg gesta) en flest birtast í vinahópum hér og hvar á Facebook. 

Ferðalög úr stofunni heima

Rafrænar bókmenntagöngur

Bóklestur býður auðvitað upp á ferðalög úr sófanum heima en það er líka hægt að fara í bókmenntagöngur að heiman með smáforriti Bókmenntaborgarinnar, Reykjavík Culture Walks. Nú eða snara sér út í göngutúr í miðbænum ef maður er í bænum og hefur tækifæri til. Þetta fría app inniheldur göngur á íslensku, ensku, þýsku, spænsku og frönsku. Þar leiða leiðsögumenn okkur um slóðir sagna, ljóða og höfunda í Reykjavík og við fáum að heyra glefsur úr skáldskap sem tengist viðkomustöðunum.

Ljóðakort Reykjavíkur

Borgarbókasafnið heldur úti rafrænu ljóðakorti Reykjavíkur þar sem hægt er að lesa ljóð sem tengjast tilteknum stöðum í borginni.

Íslandskort bókmenntanna

Á vef Borgarbókasafns er líka hægt að skoða Íslandskort bókmenntanna þar sem merkt hefur verið við sögustaði eða áhrifastaði bókmennta af ýmsu tagi.

RÚV

Á vef RÚV er mikið bókmenntaefni aðgengilegt hvenær sem er og er t.d. hægt að fylgjast með því á bókmenntahluta menningarsíðunnar. Á KrakkaRÚV er svo hægt að nálgast fjölbreytt bókmenntatengt efni fyrir börn. 

Vefstiklur um skapandi skrif

Menntamálastofnun hefur gert nokkur vídeó með þeim Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Davíð Stefánssyni þar sem þau leiðbeina krökkum við skapandi skrif og listina að leika sér með tungumálið. Það er tilvalið að kíkja á þetta lifandi efni fyrir krakka og foreldra sem langar að nýta tímann heima til að búa til sögur og skapa saman. 

Sögustundir Ævars vísindamanns

Barnabókahöfundurinn Ævar Þór Benediktsson les úr bók sinni Risaeðlur í Reykjavík í daglegum sögustundum á Facebook síðu Ævars vísindamanns. Þeir sem hafa misst af lestrunum hingað til geta samt sem áður fylgst með því innslögin lifa þar áfram að lestri loknum.