Delluferðin

delluferðin
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Delluferðin

Skáldskapargleði, leikur, gáski, ærsl og dálítið grín, einkenna frásögnina í Delluferðinni, nýjustu skáldsögu Sigrúnar Pálsdóttur, sem kemur á óvart í ljósi þess að um ræðir sögulega skáldsögu sem gerist á árunum fyrir aldamótin nítjánhundruð. Þess utan einkennist frásögnin af sögulegri nákvæmni, þar sem umhverfi, tungutak og tíðarandi virðast, að minnsta kosti þeim sem ekki veit betur, vera nokkuð rétt og nákvæm. Delluferðin sameinar því sögurnar sem Sigrún hefur sent frá sér áður, en hún er sagnfræðingur að mennt og hefur stundað sagnfræðirannsóknir eins og saga hennar um Þóru biskupsdóttur, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, ber glöggt vitni. Sú kom út árið 2010, en árið 2013 fylgdi Sigrún og Friðgeirferðasaga, sem einnig er söguleg skáldsaga um hjón sem fluttu vestur um haf snemma á fimmta áratugnum til að stunda læknanám en fórust ásamt börnum sínum á leiðinni heim með Goðafossi árið 1944. Kompa kom svo út árið 2016 og markaði ákveðin skil í höfundarferli Sigrúnar en hún er alfarið skáldsaga, þó um sögulegt efni; aðalpersónan hefur varið löngum tíma í að skrifa doktorsritgerð og er á lokametrunum þegar hún kemst að því að hún hefur mislesið heimildina sem liggur rannsókninni til grundvallar. Ritgerðin er því gott sem ónýt og doktorsefnið missir smám saman tökin á tilverunni. Delluferðin er, eins og Kompa, skáldsaga frá upphafi til enda þrátt fyrir að þar sé sagt frá sögulegum persónum í sögulegu umhverfi.

Sagan segir frá Sigurlínu Brandsdóttur, ungri konu sem býr í Reykjavík ásamt föður sínum og bróður rétt fyrir aldarmótin nítjánhundruð. Fjölskyldan bjó áður fyrir norðan en eftir að móðirin lést af barnsförum fluttist faðirinn ásamt börnum sínum suður til höfuðstaðarins sem, eins og landið allt, tilheyrir Danakonungi. Faðir Sigurlínu er fræðimaður og að því er virðist safnstjóri safns sem geymir forngripi sem búa yfir misjafnlega miklu sögulegu mikilvægi. Sigurlína fær að aðstoða föður sinn í fræðistörfum hans en sinnir einnig hinum hefðbundnu kvennastörfum, eldar mat og er lagin saumakona sem drýgir aðeins tekjurnar með saumaskap.

Kvenhetjan okkar á þann draum heitastan að brjótast til mennta og sigla burt frá skerinu – kynnast heiminum í kringum litla Ísland. Faðir hennar er ekki eins spenntur fyrir þessum draumum og þegar Sigurlína telur útilokað að hann muni greiða götu hennar grípur hún til sinna ráða og lætur sig hverfa einn morguninn. Hún siglir fyrst til Skotlands og svo áfram alla leið yfir Atlantshafið og til New York. Borgin er kraumandi suðupottur þar sem fólk kemur alls staðar að úr heiminum í leit að betra lífi, freistar gæfunnar og þar sem bilið á milli ólíkra hópa og stétta er ansi breitt. Í Bandaríkjunum tekur Sigurlína upp nafnið Selena Branson, svona eins og fyrir slysni, og kynnist ólíkum þjóðfélagshópum – forríkum söfnurum, sem stytta sér stundir við fræðimennsku, og sótsvörtum pöplinum sem þrælar myrkranna á milli og býr við afar slæma kjör. Með frá Íslandi hefur Sigurlína forngrip einn, nælu, sem hún kann ekki alveg deili á en í neyð sinni freistar hún þess að koma honum inn á það stórmerkilega safn Metropolitan sem þá var á upphafsárum sínum. Sagan um delluferð Sigurlínu vestur um haf er ekki spennusaga en atburðarásin er á köflum æsispennandi. Því vil ég sem minnst segja frá söguþræðinum annað en að Sigurlína eins og flýtur áfram í hröðum straumi borgarinnar, fer frá einum stað til annars, þangað til hún heldur aftur heim á klakann.

Sagan er ákaflega skemmtileg og heillandi fyrir margra hluta sakir. Hún gefur innsýn inn í líf bæjarbúa í Reykjavík rétt fyrir aldamótin nítján hundruð, en einnig inn í ansi hreint magnaðar aðstæður íbúa í New York á mjög áhugaverðu tímabili í sögu borgarinnar. Þá er fróðlegt að lesa um stofnun Metropolitan safnsins og ekki síður um stofnanda þess. Og umræðan um menningarverðmæti og sagnaritun, um það hvernig menningarlegt minni verður til, er athyglisverð og marglaga. Hver ákveður að tiltekinn hlutur sé merkilegri en annar og af hverju? Hvaða hagsmunir búa að baki því að sumir hlutir og listaverk eru til sýnis í sýningarsölum safna og fyrir allra augum á meðan aðrir eru faldir í safngeymslum? Hvað verður til þess að einföld næla er ýmist mikils metin eða talin verðlaus með öllu? Delluferðin veltir upp þessum margbrotnu spurningum og verður fyrir vikið að stórri sögu í knöppu formi.

Atburðarásin er hröð og stundum, þá sérstaklega í seinni hluta sögunnar, hefði ég gjarnan viljað hægja aðeins á frásögninni og að höfundur hefði teygt lopann aðeins meira - ef til vill leyft Sigurlínu að staldra aðeins lengur við í stórborginni. En það hefði mögulega strítt gegn heildarkonsepti sögunnar því Delluferðin er ekki hefðbundin söguleg skáldsaga sem á köflum þykist vera fræðibók, umhugað um að upplýsa lesanda um allt milli himins og jarðar á einum stað á einum sögulegum tíma. Þvert á móti nýtir höfundur þekkingu sína til að skapa sögusvið sem vekur áhuga lesanda um leið og hún beitir frásagnarlegum tilþrifum til að bregða á leik og leggja upp í skáldskaparlegt ferðalag sem kristallast nokkuð vel í titlinum – Delluferðin. Maður heyrir af ýmsum ferðum sem fólk fer nú á tímum sér til gamans, og í ljósi yfirvofandi loftslagsvár er kallað eftir því að fólk láti af ferðum sem hafa kannski ekki brjálæðislega mikinn tilgang, eru hálfgerðar delluferðir. Að ung kona á síðari hluta nítjándu aldar fari skreppitúr vestur um haf, leggi á sig erfiða, langa, ef ekki stórhættulega sjóferð til þess eins að sjá aðeins heiminn, er auðvitað delluferð par excellence – en ævintýraleg og bráðskemmtileg engu að síður. Það er ekki algengt að maður óski þess að höfundar teygi aðeins á sögum sínum, yfirleitt er því öfugt farið, en ég stóð mig að því að vilja spara mér lesturinn, eiga hann inni, bara til að lengja lestrarstundirnar aðeins og magna upp þá eftirvæntingu og tilhlökkun sem fylgdi því að lesa um ferðalag Sigurlínu Brandsdóttur, einnig þekkt sem Selena Branson, vestur um haf.

 

Vera Knútsdóttir, nóvember 2019